Ég er að fletta gömlum Gestgjafa. 2. tölublað 1. árgangs, þetta er sem sagt sumarblaðið 1981. Og þarna, innan um uppskriftir að körfukjúklingi, lambakórónu (hver einasti rifjaendi skreyttur með hvítum pappírsvendi), allskonar rjóma- og majónessósur, svuntusnið og munnþurrkubrot, er auglýsing um gasgrill frá Cramer. Og þarna mundi hneykslunargjörnu fólki og sumum femínistum svelgjast illilega á, því konan við grillið er í afskaplega hreint efnislitlu bikini einu fata, og með háhælaða skó á fótum. Ég mundi nú ekki grilla í bikini, jafnvel þótt ég hefði vöxtinn í það.
Þetta er reyndar ekki íslensk auglýsing, það er alveg ljóst. Og grill eins og konan stendur við hef ég aldrei séð og reyndar ekkert því líkt; það er lágt, með snúningsteini, og fyrir ofan teininn er gashelluborð með þremur rósóttum emaleruðum pottum. Eitthvað mjög þýskt við þessa mynd. Bæði umhverfið, grillið og konuna.
Á næstu opnu er svo grein sem heitir Grillað í Vesturbænum. Grilluð svínarif, reyndar töluvert öðruvísi en ég var með uppskriftir að í grillblaði Gestgjafans í vor, en mundu örugglega falla vel í geð líka núna. En konurnar eru ekki á bikini.