Samkvæmt fregnum norðan úr Vindhælishreppi kann Eldfjallið vel við sig í sveitasælunni og var farin að böðlast í að rífa girðingar með afa sínum; gekk rösklega fram í því eins og öðru sem henni finnst skemmtilegt. Var líka búin að gefa honum leyfi til að leggjast á greni en sagðist þó ekki ætla með. Mér er þó ekki ljóst hvort það var af einskærri samúð með tófunum eða hvort henni þótti það ekki óhætt af því að hún hafði heyrt söguna af því þegar hann skaut yngri bróður sinn með haglabyssu af því að hann var svo mikil klöguskjóða.
Sauðargæran kom í kvöldmat til mín ásamt foreldrum sínum, alsæll með sveitadvölina en svangur eftir ökuferðina að norðan og byrjaði á því að háma í sig fjórar eða fimm vænar eplaskífur, svona sem forrétt áður en hann settist við matarborðið. Ég steikti nefnilega eplaskífur með hvítasunnukaffinu handa okkur efnafræðistúdentinum.
Eplaskífur eru ekki skífur og í þeim eru ekki epli. Þær heita eplaskífur (ég er oft spurð að þessu) af því að upprunalega voru eplabitar eða sneiðar í þeim og þær voru steiktar á pönnu. Í matreiðslubók maddömu Mangor (ég á sjöttu útgáfuna frá 1844) er reyndar uppskrift að ,,fljótandi eplaskífum" og þá er léttsteiktum eplasneiðum velt upp úr deigi og þær síðan steiktar á pönnu. Enn stinga sumir eplabita á kaf í deigið þegar búið er að setja það í holurnar og það getur reyndar verið ansi gott; þó er betra að forsjóða eða steikja eplin áður því eplaskífur eru það fljótbakaðar að eplabitarnir geta verið fullharðir ef það er ekki gert.
Það þarf eplaskífupönnu til að steikja klassískar eplaskífur og kannski ekki margir sem eiga slíkt þing. Þessar sem Alpan framleiðir og selur aðallega til afkomenda Dana í Ameríku eru ágætar sem slíkar en þær er bara hægt að nota til að steikja eplaskífur. Ef maður á gamla eplaskífupönnu gæti hún farið vel sem veggskraut í eldhúsinu á milli þess sem hún er brúkuð. Ég keypti mína eplaskífupönnu, sem er úr níðþungu steypujárni, hjá Þorsteini Bergmann á Skólavörðustígnum - þar er alltaf hægt að finna eitthvað snjallt - og þar hafði hún verið notuð sem kertastjaki úti í glugga. Ég gæti alveg hugsað mér að hafa hana fyrir kertastjaka einhvern tíma en sem stendur skreytir hún eldhúsvegginn. En í dag steikti ég alltsvo eplaskífur. Og hér er uppskriftin mín, fyrir þá sem eiga eplaskífupönnu - reyndar má líka nota deigið í lummur og hafa þá jafnvel þunna eplasneið í hverri.
Eplaskífur
250 g hveiti
rifinn börkur af 1 sítrónu
1/2 tsk matarsódi
1 msk sykur
1/4 tsk salt
200 g (1 dós) hreint skyr
200 ml mjólk (í staðinn fyrir skyr og mjólk má nota 400 ml súrmjólk)
3 egg, aðskilin
50 g smjör
Hveiti, sítrónubörkur, matarsódi, sykur, salt, skyr, mjólk og eggjarauður sett í matvinnsluvél og hrært vel saman (auðvitað má líka nota rafmagnsþeytara eða písk). Deigið látið bíða í um hálftíma. Eggjahvíturnar stífþeyttar og blandað gætilega saman við með sleikju. Smjörið brætt og eplaskífupannan hituð. Svolítið smjör sett í hverja holu á pönnunni og deigi síðan hellt í holuna; það ætti að fylla hana að u.þ.b. 3/4. Steiktar við meðalhita þar til ljósbrún skorpa hefur myndast að neðan en þá er þeim snúið (best að gera það með prjóni/prjónum, ég nota alltaf tvær kjötnálar sem ég sting í skífuna). Steiktar áfram á hinni hliðinni - það má stinga í þær með prjóni til að athuga hvort þær séu steiktar í gegn. Reyndar er best að snúa þeim nokkrum sinnum á meðan þær steikjast en ég nenni því ekki alltaf. Bestar heitar með miklum flórsykri sigtuðum yfir.