Hér kemur fréttin sem ég fékk í gær og gladdi mig svo mikið:
Alan Davidson, sem ég lít á sem minn mentor og fyrirmynd, fær Erasmusverðlaunin í ár. Verðlaunin eru veitt árlega ,,a person or institution that has made an exceptionally important contribution to European culture, society or social science" og á meðal fyrri verðlaunahafa eru t.d. Vaclav Havel, Mary Robinson, Simon Wisenthal, Ingmar Bergmann, Charlie Chaplin og Jean Piaget. Verðlaunin eru 150.000 evrur og það er Hollandsdrottning sem afhendir þau. Í tölvupósti sem ég fékk frá Alan í gær segir hann meðal annars:
,,This is a big thrill, and extremely gratifying, and all the more so because, although the Prize had to go to an individual, I see it as a recognition of and tribute to all those people (and not least yourselves!) who have done such wonderful work on food history in the last two or three decades."
Ekki ætla ég að taka þetta til mín en samt finnst mér eins og ég hafi fengið pínulítinn hlut af verðlaununum, einfaldlega vegna þess að það var Alan sem kveikti með mér löngun til að skrifa um mat. Ég eignaðist bók eftir hann þegar ég var rúmlega tvítug. Það var fyrsta matreiðslubókin sem ég hafði séð sem var miklu meira en bara uppskriftir og ég man enn að ég hugsaði með mér: Ef ég skrifa einhvern tíma um eitthvað, þá ætla ég að skrifa svona.
Það liðu svo mörg ár þar til ég kynntist Alan og uppgötvaði hvað hann er yndislegur maður. Ég á honum mjög mikið að þakka. Fyrir utan það að hann er ekta enskur sérvitringur eins og þeir gerast bestir; fyrrverandi karríerdiplómat (var m.a. sendiherra Breta í Laos) sem hætti til að fara að skrifa um mat og gefa út matreiðslubækur.
Þetta er stór dagur fyrir alla sem hafa áhuga á mat og matarsögu; viðurkenning á því hve mikilvægur þáttur fæðan er í menningu okkar. Og svo er þetta svo skemmtilegt.
Nú þarf ég að fara að lesa aftur NATO-skáldsöguna hans Alans.