Við efnafræðistúdentinn getum gert skolli góðan mat þegar við leggjum saman og það gerðum við einmitt í kvöld - ég steikti andabringur (svona er það þegar maður ákveður að lifa á því sem til er í frystiskápnum) með vínberjum og pistasíuhnetum, ofnsteikti kartöflubáta, bjó til salat (klettasalat, kirsiberjatómatar soðnir í balsamediki, furuhnetur og parmigiano-ræmur) og bragðbætti villisveppasósu, sem reyndar var ekki heimalöguð. Hann sá um eftirréttinn, steikti pönnukökur, hitaði þær svo í súkkulaði-appelsínusósu og flamberaði með koníaki. Hann er frekar efnilegur.
Svo komst ég að því á eftir að á þessum fjörutíuogeitthvað stöðvum sem sjást í sjónvarpinu mínu var hvergi verið að sýna neitt sem ég hafði áhuga á. (Ókei, það var komið fram yfir miðnætti og dagskrá sumstaðar lokið - en samt.)
Einhvers staðar las ég áðan að bandarísk rannsókn (minnir mig) hefði leitt í ljós að börn undir tíu ára aldri skildu ekki kaldhæðni. Það veit ég ekkert um en sumir afkomendur mínir eru fæddir kaldhæðnir.