Ég var að átta mig á að ég hef ekki minnst einu orði á efnafræðistúdentinn minn í að minnsta kosti þrjá daga. Hvað er í gangi? Er drengurinn fluttur að heiman? Er hann á kvennafari úti í bæ? Er hann kominn í ræsið? Er hann lagstur í kör? Er ég flutt að heiman? Eða ... nei, förum ekki nánar út í það.
Það hefur bara ekkert frásagnarvert komið upp á í samskiptum okkar mæðginanna síðustu daga, merkilegt nokk. Hann hringdi að vísu í mig í vinnuna fyrir klukkan fimm í gær til að láta vita að hann væri að fara að sofa. Ég hélt fyrst að hann væri kannski að fá svefnsýki - Þorbergur langafi minn dó einmitt úr svefnsýki eftir því sem kirkjubókin greinir frá - en svo mundi ég að nokkra undanfarna morgna hafði hann verið farinn í skólann þegar ég vaknaði, sem er mjög mjög óvenjulegt. Hvort sem hann hefur rifið sig upp af einskærum námsáhuga eða er bara ekki kominn aftur inn í rétt mynstur eftir jólafríið. Við sjáum til hvort þetta jafnar sig ekki út um helgina.