Sko, þótt ég hafi sagt um daginn að nafnið á blogginu mínu væri pólitískt steitment þýðir það ekki að ég sé komin í Framsóknarflokkinn, sjá hér. Steitmentið var meira svona persónupólitískt en flokkspólitískt.
Nú þarf ég að snúa mér að því að vekja efnafræðistúdentinn, hann þarf að fara að snúa sólarhringnum við aftur því að skólinn er að byrja í fyrramálið og í gær vaknaði hann ekki fyrr en um sexleytið. Hann er líkur móður sinni hvað það varðar að þegar sá gállinn er á honum getur hann sofið af sér hvaða vekjaraklukkuhringingu sem er, ég hef oftar en einu sinni í jólafríinu þurft að vekja hann til að skipa honum að slökkva á vekjaraklukkunni, sem þá var búin að pirra mig í tíu mínútur eða meir, og þó heil íbúð og að minnsta kosti ein hurð á milli.
Hann hefur samt ekki gripið til þess ráðs sem ég gerði einu sinni til að losna við hávaða í vekjaraklukku - reyndar ekki hringingu, þetta var gamaldags vekjaraklukka sem tikkaði óskaplega hátt og ég gat ekki sofnað fyrir andskotans tikkinu, ég reyndi að setja hana fram í eldhús (herbergið mitt í foreldrahúsum var inn af eldhúsinu) en það dugði ekki til svo að ég stakk henni í ísskápinn. Aumingja móður minni brá víst illilega um morguninn þegar hún opnaði ísskápinn alveg grunlaus og vekjaraklukkan blasti við. Samt sennilega ekki eins mikið og þegar ég málaði einn vegginn í herberginu mínu skærgulan um miðja nótt án þess að vara hana við.