Í gær var ég að fara í gegnum fataskápinn minn til að athuga hvort ég hefði ekki einhverja afsökun fyrir því að fara á útsölur. Eða kannski öllu heldur, hvort ég gæti ekki fundið afsökun fyrir því að hafa farið á útsölurnar sem ég var þegar búin að fara á ... Eins og venjulega fann ég nokkrar flíkur sem ég var búin að gleyma að ég ætti og get farið að ganga í aftur. Nú heldur kannski einhver að fataskápurinn hjá mér sé svona gífurlega stór en það er hann ekki, hann er reyndar frekar lítill, og geymdi þó einu sinni næstum allan fatnað sex manna fjölskyldu. Samt tekst mér alltaf að týna einhverju í honum. Til allrar hamingju hef ég enn ekki fundið aftur ljósbláu buxurnar sem hurfu inn í skápinn fyrir nokkrum árum og hafa ekki sést síðan, ég gæti dottið í þá gryfju að fara að ganga í þeim aftur. Það væri ekki góð þróun, ykkur að segja.
Ég eyddi reyndar töluverðum hluta bernsku minnar uppi á þessum skáp. Þar hafði nefnilega bókaskáp verið komið fyrir - hann gat vegna þrengsla ekki verið annars staðar - og þar fyrir framan var ágætt pláss (allavega 25 cm breitt) fyrir mjósleginn krakka (ég var það þá) og svosem eins og tvær bækur - móðir mín segir að ég hafi stundum legið þarna á maganum með eina bók fyrir framan mig og aðra opna til fóta. Hvernig sem á því stóð valt ég aldrei niður á gólf, sem var ógnarhátt fall, en núna nær skápurinn svo sem ekki nema upp í augnhæð mína og er ég þó ekki sérlega hávaxin manneskja. Kannski hefur hann skroppið saman því það var háskalegt klifur að brölta þarna upp.
Þarna uppi á skápnum las ég alla Enid Blyton, Möttu Maju og annað slíkt, en líka Undir gunnfána lífsins, Frelsið eða dauðann og Sögu Framsóknarflokksins, og annað það sem í bókaskápnum var geymt, nema ég lagði held ég aldrei í Vísindi nútímans. Þess vegna á ég svolítið erfitt með að losa mig við hann þótt það sé að vísu löngu tímabært að verða sér úti um fatahirslu þar sem hægt er að ganga að fötunum vísum og treysta því að þau hverfi ekki á dularfullan hátt, jafnvel árum saman.