Ég keypti nýtt tannkrem í gær. Colgate Herbal, sömu tegundina og síðast, hélt ég, en þegar byrjað var að nota það kom í ljós greinilegt jólabragð ...
Við nánari athugun reyndist þetta tannkrem vera framleitt á Indlandi og vera bragðbætt með tulsi, pudina, neem og laung, sem er negull (þaðan kom jólabragðið); hitt mun þýða basilíka, piparminta og karrílauf, að ég held. Ég kann reyndar ekkert í neinu indversku tungumáli en ég fletti þessu upp hjá honum Gernot, hann veit allt svona (íslensku kryddheitin hjá honum eru reyndar á mína ábyrgð). Svo að líklega er þetta ekki sérstök jólaútgáfa af Colgate Herbal, heldur hefur Bónus flutt inn tannkrem bragðbætt í samræmi við indverskan smekk. Fyrri túban var með kamillu-, salvíu-, mintu- og eucalyptusbragði, sem er meira svona vestrænt.
En bragðið á vel við svona um jólin.