Við Sveinbjörn
Við Sveinbjörn erum að gæða okkur á kexi og osti og gráfíkjusultu í morgunmat, annan daginn í röð. - Hér sperra nú lesendur sem ekki eru Facebook-vinir mínir kannski eyrun (eða hvessa augnaráðið, er líklega réttara að segja) og halda kannski að ég hafi í blogghléinu gert alvöru úr því sem ég er búin að tauta um í mörg ár og fundið mér einhvern kall að elda oní.
En slík er nú framtakssemin ekki. Sveinbjörn er húsfluga sem hefur verið þaulsætin hér í íbúðinni í einhverjar vikur og er þátttakandi í húshollningunni. Reyndar stóð ég í þeirri meiningu að húsflugur væru frekar skammlífar en ef það er rétt og þetta er ekkert alltaf sama flugan, þá villir hún allavega býsna vel á sér heimildir og aldrei sést nú nema ein í einu. En ég er reyndar hvorki mannglögg né fjárglögg og örugglega ekki fluguglögg heldur. Kannski er þetta ný fluga á hverjum degi.
En allavega, þegar svo var komið að ég var farin að heilsa flugunni upphátt þegar ég kom heim úr vinnunni á daginn sá ég að þetta dugði ekki og hún varð að fá nafn. Svo að nú heitir hún Sveinbjörn.
Hmm, kannski ætti ég að fara meira út á meðal fólks.