Vanhæfni mín
Ég hef nú ekki verið svo mikið í því í áranna rás að leiða hugann að skyldleika og tengslum. Hef lítinn áhuga á ættfræði nema sem hjálpartæki til að velta fyrir mér lífskjörum og örlögum forfeðra minna, því fremur sem þeir voru fátækari og aumari.
En í ástandi eins og nú ríkir er betra að vera með þetta allt á hreinu. Gallinn er að Ísland er svo lítið þjóðfélag að allir eru skyldir einhverjum eða tengdir eða voru með þeim í skóla eða unnu saman eða eitthvað.
Til dæmis var ég að átta mig á því að ég er náttúrlega bullandi vanhæf til að tjá mig um nokkurn skapaðan hlut varðandi bankamál og fjármál. (Ég er það hvort eð er vegna þekkingar- og skilningleysis en það er maður nú ekki vanur að setja mikið fyrir sig.)
Nei, en ég er sko búin að vera í heil þrjátíu ár í saumaklúbbi með eiginkonu stjórnarmanns í gamla Glitni. Ekki að við höfum nú mikið verið að ræða fjármál í klúbbnum en það hefur komið fyrir af og til. Aðallega reyndar verð á matvörum og víni og húsbúnaði og svoleiðis. En samt.
Þannig að það er best ég steinhætti að tjá mig um banka. Glitni allavega.