Kæstur heili og innyfli
Fyrirsögnin vísar ekki til íslenskra stjórnmála- og embættismanna. En gæti svosem gert það í einhverjum ónefndum tilvikum.
Ég gerði sviðasultu í gær og bragðbætti soðið með rósmaríni, timjani, sítrónuberki og nýmöluðum pipar. Bara fín en kannski krydda ég hana öðruvísi næst og bæti líka fersku timjani og jafnvel fleiru út í sultuna sjálfa áður en hún stífnar. Ætlaði reyndar að gera það núna en gleymdi að kaupa timjan. Eða öllu heldur, held ég hafi keypt það en gleymt því í búðinni.
Svo ætlaði ég að athuga eitthvað um útlendar sultur af svipuðum toga til að fá hugmyndir og rak mig þá á að í wikipediu var íslenskur ,,head cheese" skilgreindur sem ,,made from svið, fermented brain and offal". Ég kannaðist nú ekki alveg við þá skilgreiningu á sviðum eða sviðasultu og fannst óþarfi að gera hefðbundinn íslenskan mat ennþá ógeðslegri en hann er í augum útlendinga svo að ég breytti þessu nú. Sem ég geri nú ekki alltaf þótt ég rekist á meinlegar villur í wikipediu.