Að lifa verðtrygginguna af
Ég ætla svosem ekki að lýsa yfir hrifningu minni á verðtryggingu, hreint ekki; hún er bölvaldur sem þyrfti að losna við. Og það hefði átt að nota tækifærið til þess í blessuðu góðærinu.
En mér finnst fólk stundum tala eins og það hafi aldrei áður gerst að verðtryggingin hafi hækkað lánin aldeilis svínslega og það sé óhjákvæmilegt að allt fari í kaldakol þegar það gerist. Að maður sé endilega lentur í klemmu sem gjörsamlega vonlaust er að sleppa nokkurntíma úr.
Ég keypti íbúðina á Kárastígnum snemma árs 1991 á 6,1 milljón. Þá yfirtók ég meðal annars lífeyrissjóðslán, verðtryggt með 5% vöxtum til 25 ára. Það hafði verið tekið í janúar 1985 og var þá 300.000 krónur. Þegar ég yfirtók það rúmum 6 árum seinna voru eftirstöðvarnar 680.601 króna.
Ég borgaði af þessu láni næstu 16 árin og fyrri hluta þess tíma stóðu eftirstöðvarnar meira og minna í stað en svo fóru þær að lækka. Greiddi það svo upp þegar ég seldi, þá voru eftirstöðvarnar komnar niður í 215.887 krónur. Ég tók líka íbúðarlánasjóðslán til 25 ára, það virtist aldrei ætla að lækka. En á endanum gerðist það þó. Og verðtryggða lífeyrissjóðslánið sem ég tók til 15 ára, gott ef ekki var með 7% vöxtum - það meira að segja varð að engu á endanum.
Mér tekst náttúrlega ekki að verða skuldlaus fyrir sextugt eins og til stóð því að ég skipti um íbúð fyrir tveimur árum og tók nýtt lán. Samt bara til 20 ára svo að ... jæja, fyrir sjötugt þá. Svo framarlega sem ég hef vinnu ætti það ekki að vera vandamál, hvað sem verðbólgunni líður.
Ég sé heldur ekki að það skipti sköpum fyrir mig þótt íbúðaverð falli langt niður um tíma og ég eigi jafnvel minna en ekkert í íbúðinni þar til það fer upp á við að nýju. Ég man nefnilega að allan þann tíma sem ég var á Kárastígnum - og lengi framan af var það bölvað strögl og ég var oft í vanskilum með afborganir - þá skipti það mig afskaplega litlu máli hvort ég átti meira eða minna í íbúðinni. Ég var ekkert á leiðinni að selja svo að söluverð hennar var ekki eitthvað sem ég var stöðugt að hugsa um. Það sem skipti mig máli var að eiga öruggan samastað fyrir mig og börnin og þurfa ekki stöðugt að vera að flytja eða búa við óöryggi.
Jú, afborganirnar hafa verið að hækka og eiga eftir að hækka meira. Þær eru samt vel innan þess ramma sem ég ræð við. (Svo framarlega sem ég held vinnunni - það er auðvitað alltaf faktor í þessu dæmi.) Svo að það væri gjörsamlega út í hött fyrir mig og aðra í svipaðri aðstöðu að hætta að borga af lánunum. Og ég svæfi alveg róleg þótt svo væri komið að ég skuldaði meira en líklegt væri að fengist fyrir íbúðina. Ég hef verið í þeirri aðstöðu áður. Það er heldur ekkert á dagskrá hjá mér að selja. Einhverntíma fer húsnæðisverðið upp á við aftur og einhverntíma saxast á höfuðstól lánsins. Þetta skiptir mig litlu á meðan ég get staðið í skilum. Sú var allavega raunin fyrir rúmum áratug.
Náttúrlega ef ég dytti niður dauð meðan allt er í mínus kæmi það sér illa fyrir erfingjana. En það er ekki mitt vandamál. Ég ætla ekki að fara að gera það að einhverju issjúi að lifa verðtryggingarvandann af.