Ölmusuþjóðin Íslendingar
Uppáhalds matarbókahöfundurinn minn gefur út fréttabréf sem ég hef lengi verið áskrifandi að. Í gær fékk ég tilkynningu um að komið væri að því að endurnýja áskriftina en svo hafði hann skrifað á miðann: ,,Nanna - Icelandic currency woes? Be glad to give you a renewal / sine pecunia." Sem þýðir víst ókeypis (ég þurfti að fletta því upp, er svo ómenntuð).
Þetta gladdi mig ósegjanlega en um leið skammaðist ég mín alveg oní hrúgu. Ég á alveg fyrir áskriftinni - meira að segja dollara - og þótt ég hafi látið áskriftirnar að öllum matreiðslublöðunum sem ég hef keypt renna út núna um áramótin stóð aldrei annað til en halda áfram með þetta fréttabréf. Svo að mér dettur ekki í hug að þiggja þetta góða boð (en spyr hann kannski hvort ég geti nokkuð borgað með Paypal, því það er þar sem ég geymi dollarana mína).
En um leið finnst mér dálítið ömurlegt að roskinn rithöfundur í Massachusetts - og sjálfsagt flestir aðrir sem einhverntíma hafa heyrt minnst á Ísland - skuli hafa þá mynd af Íslandi að hér sé allt í þvílíku kaldakoli að maður hafi ekki efni á nokkurra dollara áskrift að fréttabréfi (sem er nú ekki alveg rétt, ekki enn allavega). Og vill endilega hlaupa undir bagga þótt ég viti að hann hefur ekkert átt of auðvelt með að halda fréttabréfinu úti vegna fjárskorts. Og ein samstarfskona mín hefur verið að fá matarsendingar frá velmeinandi erlendum útgefendum sem halda líklega að allur almenningur hér svelti.
Það hlýjar manni um hjartarætur en - gerir mann líka dapran.