Silfur, kavíar og banalegan
Ég verð líklega að fara í aðeins meiri silfursuðu, er búin að reka augun í örfáa gripi sem gleymdust, þar á meðal silfurplettvasann sem Mr. og Mrs. John Davidson fengu í silfurbrúðkaupsgjöf 9. október 1924 frá ,,a few friends"; hann er nærri svartur og ekki vanþörf á að baða hann.
Nei, ættarsilfrið mitt er sko upprunalega ekki mitt ættarsilfur, heldur ættarsilfur einhverra annarra sem ekki hafa kært sig um það þannig að ég hef yfirtekið það. Reyndar er ég ekkert viss um að mínir afkomendur vilji neitt með það hafa heldur, nema kannski einn og einn grip - en þeir um það. Í bili er þetta ættarsilfrið mitt.
Á myndinni er smávegis af ættarsilfrinu. Hnattlaga skálin til hægri er mín fræga kavíarskál, sérstaklega keypt til að nota í banalegunni, en þá ætla ég að gúffa í mig kavíar og kampavín eins og ég get í mig látið. Nema ég er viss um að ég verð fyrir bíl eða sálast í svefni eða fæ einhvern banvænan sjúkdóm sem veldur algjöru lystarleysi eða eitthvað. En þangað til annað kemur í ljós er þetta skálin sem ég ætla að nota til að deyja um efni fram.