Jólamaturinn
Fór á Laugaveginn en þegar ég var búin að kaupa öryggin var jólaerindunum eiginlega lokið svo að ég fór á Ósushi til að óska Önnu gleðilegra jóla og fékk einhverjar trakteringar í leiðinni. Meira þó sticks en sushi.
Svo fór ég og keypti hangikjötið. Sauðarlæri með laufabrauðinu á jóladag og tvíreykt lambalæri fyrir Þorláksmessu. Annað kjötmeti er til en eftir að kaupa fiskmetið, nema það sem ég finn þegar ég leita í frystinum á eftir.
Þá er þetta mest komið, ég er meira að segja búin að kaupa Ora-baunirnar.
Ég er ekki alveg búin að ákveða jólamatseðilinn - nógur tími til jóla - en ætli það verði ekki humarsúpa eða einhvers konar humarforréttur allavega, andabringur (fyrir barnabarnið) með brúnuðum kartöflum (líka fyrir barnabarnið), rauðkáli með trönuberjum, steikt epli og kastaníur. Eitthvað í þeim dúr allavega. Og eftirréttur sem inniheldur litlar súkkulaðikökur, hvítan súkkulaðiís og hugsanlega súkkulaði-panna cotta eða eitthvað svoleiðis. Með berjasósu trúlega.
Ekkert reykt eða saltað allavega - við fáum nóg af því á jóladag.