Ég skrifaði um það fyrir fáeinum mánuðum að nú væri að koma að merkum áfanga; allt útlit væri fyrir að við næstu afborgun af húsbréfaláninu mínu færu eftirstöðvar með verðbótum í fyrsta sinn niður fyrir upprunalega lánið, einmitt þegar afborgunartíminn væri hálfnaður. Þetta gekk ekki alveg eftir, ætli verðbólgan hafi ekki tekið einhvern kipp, en nú var ég að fá greiðsluseðil og viti menn: Þegar ég (eða greiðsluþjónustan) er búin að borga hann verða eftirstöðvarnar nærri 1500 krónum lægri en lánið var í upphafi. Eftir tæplega þrettán ára afborganir.
Þetta eru náttúrlega vatnaskil í fjármálum heimilisins og ástæða til að halda upp á þetta á einhvern hátt. Ég fer jafnvel að trúa því að ég verði í alvöru orðin skuldlaus fyrir sextugt eins og ég hef lengi stefnt að. Og get þá væntanlega farið að njóta lífsins. Farið í vetrarfrí til Kanarí og húsmæðraorlof til Parísar. Eða hvað það nú er sem skuldlausar sextugar kerlingar gera.
En eins og ég held að ég hafi áður sagt: Mikið er ég fegin því að ég lengdi lánið ekki í 40 ár þegar ég átti kost á því á sínum tíma.