Alþjóðleg frægð mín
Þetta er montfærsla, ókei? Bara svo það sé á hreinu.
Ég amazónaði sjálfa mig áðan. Hlýtur að vera hægt að tala um það alveg eins og að gúggla sig. Og mér til undrunar komu upp 13 titlar.
Ókei, Cool Cuisine (tvisvar) og Icelandic Food and Cookery skýra sig sjálfar og ég vissi að þær kæmu. Sama er að segja um The Oxford Companion to Food og The Penguin Companion to Food, sem er í raun sama bókin og höfundurinn var góðvinur minn. Ég vissi líka að ég er nefnd á nafn (að ástæðulausu reyndar) í The Turkey: An American Story, enda á ég þá bók.
Það kom mér hins vegar verulega mikið á óvart að fá upp þarna The Encyclopedia of Cajun & Creole Cuisine - ég er ekki sérlega fróð um þá eldamennsku og sá ekki nokkra minnstu ástæðu til að ég væri nefnd í þeirri bók. En svo rak ég augun í klausuna sem sýnir að þarna er vitnað í mig sem sérstakan sérfræðing um eggnog. Je ræt.
The Jungle Effect: A Doctor Discovers the Healthiest Diets from Around the World--Why They Work and How to Bring Them Home kannaðist ég ekki við - sá þó að þarna var vitnað í ,,the writings of Icelandic chef Nanna Rögnvaldardóttir". Þegar ég las meira sá ég að höfundurinn hafði ferðast um Ísland og kynnt sér mataræði Íslendinga - en kannski ekki alveg nógu vel því hún hélt því fram að flestir Íslendingar drykkju te daglega, og mikið af því.
Ég hef ekki skoðað Lonely Planet Iceland en sennilega er minnst þar á einhverjar af túristamatreiðslubókunum mínum. Þá stóðu eftir International Dictionary of Gastronomy, Tastes & Tales of Norway, English-Norwegian Norwegian-English Dictionary og Beginner's Swedish. Sú fyrsta gat staðist, hinar alls ekki. Allavega ekki orðabækurnar. Enda sá ég fljótt að þessar bækur eru allar gefnar út af Hippocrene, sem er bandaríski forleggjarinn minn, og það var bara verið að auglýsa bókina mína þarna á saurblöðunum ásamt öðrum bókum útgáfunnar. Svo að alþjóðleg frægð mín er víst ekki alveg eins mikil og ég hélt fyrst.