Eldað á hollensku
Hana, þar fækkaði löndunum á listanum sem ég setti hér inn í fyrradag um eitt. Ég fann nefnilega matreiðslubók frá Surinam á Ebay í dag og pantaði hana samstundis. Kostaði líka sama og ekkert.
Hún er að vísu á hollensku en ég hef eldað eftir hollenskum uppskriftum með þokkalegum árangri svo að það dugir uns annað býðst. Ég hef heldur aldrei fyrr á mínu netflakki rekist á neina súrínamska matreiðslubók á nokkru tungumáli. En ég held að þetta sé skemmtileg blanda af hollenskri, indíánskri, indverskri, kínverskri, enskri, spænskri og franskri matargerð með meiru.
Reyndar sé ég núna að Frönsku Guyana (Gvæönu?) vantar á listann, sennilega vegna þess að það land (eða ekki-land) telst partur af Frakklandi og þar er evran gjaldmiðill (hvað eru annars mörg lönd/svæði utan Evrópu þar sem evran er notuð?) Samt vel hugsanlegt að til sé matreiðslubók þaðan. Aftur á móti á ég bók frá Guyana, líklega einar tvær.