Sjónvarp, krókódilar og klósettfata Churchills
Það eru ákveðnir kostir við lélega sjónvarpsdagskrá (Patrick Swayze, kommon - þótt kallgreyið sé dauðvona, hann verður ekkert skemmtilegri leikari fyrir það); ég gæti náttúrlega horft á Biggest Loser á eftir á Skjá 1, ojæja - en allavega, maður fer kannski að flakka á milli stöðva og rekst á sitthvað áhugavert. Til dæmis veit ég núna að það eru krókódílar í Kína, sem ég hafði bara ekki grænan grun um áður, og hef ég þó fræðst mikið um Kína síðasta árið.
Og núna er ég að horfa á nokkuð áhugaverðan þátt um London neðanjarðar. Bunkerinn hans Churchills og svona. Í bunkernum, sem er tugi metra ofan í jörðinn er rafstöð, eldhús, birgðageymsla og hvaðeina - en ekkert klósett. Churchill hefði þurft að gera sín stykki í fötu ef hann hefði þurft að dvelja þar langdvölum.
Hinn möguleikinn er að slökkva og fara að gera eitthvað annað. En til þess þyrfti ég að standa upp.