Rómarför
Mér tókst að finna gistingu í nokkrar nætur í Róm í haust, á hóteli í næstu götu við Piazza Navonna - hóteli sem fær mjög góð meðmæli frá fyrri gestum á Tripadvisor - sem setur mig ekki á höfuðið (eða það fer reyndar eftir því hvernig gengið verður á evrunni í haust, en den tid den sorg). Ekki beint ódýrt sko, en samt það sem ég er til í að borga fyrir þokkalegt herbergi á þessum stað.
Ég pantaði og fékk staðfestingu. Daginn eftir þurfti ég aðeins að tékka aftur á bókuninni og sá þá að ef ég hefði gert samskonar pöntun aftur hefði ég þurft að borga rúmlega 80% hærra verð en ég var búin að panta á.
Nú er ég að velta fyrir mér: Var ég bara heppin og fékk einhvern súperdíl? Gerði einhver mistök og þegar ég kem í haust þarf ég að borga hærra verðið, alveg sama hvað stendur á útprentuðu bókuninni minni? Eða var herbergið sem ég var að panta eina lélega, ódýra herbergið á hótelinu (kannski þetta sem er beint yfir pizzaofninum á pizzastaðnum á jarðhæðinni, ég veit reyndar ekkert hvort er pizzastaður á jarðhæðinni) og þeir sem hafa skrifað umsagnir á Tripadvisor hafa aldrei lent á því herbergi?
Ég giska á seinustu tilgátuna. Ojæja, það kemur í ljós í haust.