Vellukkaður grillaður grís
Jújú, þetta tókst allt saman ágætlega. Að vísu hafði ég ekki tíma til að láta bóginn bíða nema örstutta stund, hann hefði vel mátt standa í svona hálftíma á hlýjum stað áður en hann var borinn fram - en kom ekki að sök. Auðvitað er stórt flykki eftir, þetta var jú 4 kg bógur og við vorum bara þrjú fullorðin og tveir krakkar. En ég hef nú aldrei verið í vandræðum með afganga af svínasteik.
Grillaður svínabógur
1 svínabógur með pöru, 3-4 kg
2 tsk reyksalt (má sleppa og nota þá meira Maldon)
2 tsk Maldon-salt
nýmalaður svartur pipar
timjangreinar
Taktu bóginn úr kæli klukkutíma áður en hann fer á grillið og þerraðu pöruna vel. Ristu vel ofan í pöruna með beittum hníf með um 1-1 1/2 cm millibili - alveg gegnum fitulagið en ekki mikið ofan í kjötið. Nuddaðu blöndu af reyksalti, Maldon-salti og pipar vel inn í kjötið og ofan í skurðina og leggðu timjangrein í hvern skurð. Láttu standa á meðan grillið er hitað vel. Slökktu svo á miðbrennaranum (hef ekki gert þetta á tveggja brennara grilli en það er ábyggilega hægt líka), settu kjötið þar á með pöruna upp (ég lagði vænan skerf af timjangreinum undir), lokaðu grillinu, stilltu brennarana sem eru í gangi þannig að hitinn undir lokinu sé á millli 180-200°C og láttu bóginn svo sjá um sig sjálfan næstu 2 1/2-3 klst. Svo er best að hann fái að standa á hlýjum stað í svona hálftíma.
Þetta er allt og sumt sem þarf að gera. Jájá, það er voða freistandi að vera alltaf að kíkja á bóginn en mundu að í hvert skipti sem lokinu er lyft tapast hiti (ég tala nú ekki um í golu eins og í dag) og þá lengist grilltíminn. Það er ekkert sérlega líklegt að kjötið brenni. Jú, botninn getur dökknað töluvert en það er aldrei nema örþunnt lag sem brennur; allt hitt verður safaríkt og meyrt. Og það þarf ekkert að snúa stykkinu, hitinn kemur úr öllum áttum - líka að ofan, hann endurkastast frá lokinu.
Ekki slæmt.