Jarðarberjabaka með mascarpone
Jarðarberjabaka með mascarpone-osti
1 bökubotn (ég notaði tilbúna rúllu)
2 matarlímsblöð
150 ml rjómi
2 egg
2 msk hunang
2 msk hrásykur (eða hvítur sykur)
250 g mascarpone-ostur, mjúkur
1/2 tsk vanilluessens
safi úr 1/2 sítrónu
500 g jarðarber (helst Silfurtúns - en ekki skilyrði)
Ofninn hitaður í 200°C, deigið lagt yfir bökuform og þrýst niður, bökunarpappír settur ofan á og síðan eitthvert farg - oftast þurrkaðar baunir eða hrísgrjón en það vildi svo til að ég átti hvorugt og notaði því bara annað aðeins minna bökuform - þess vegna er lögunin á bökuskelinni svona óregluleg). Bakað í 15 mínútur og þá er fargið fjarlægt og bökuskelin bökuð í 5 mínútur í viðbót. Tekin út og látin kólna alveg.
Matarlímið lagt í bleyti í kalt vatn. Rjóminn þeyttur. Eggin þeytt með hunangi og sykri í annarri skál, mascarpone-ostinum hrært saman við og þegar blandan er slétt er vanilluessens hrært saman við. Matarlímið brætt í sítrónusafanum og hrært saman við og að lokum er rjómanum blandað saman við. Hellt í kalda bökuskelina. Jarðarberin hreinsuð, skorin í tvennt og raðað ofan á. Kælt þar til kremið er stíft en síðan er best að taka bökuna út a.m.k. hálftíma áður en hún er borin fram svo að berin séu ekki ísköld.