Hreinlætið borgar sig ekki
Mér varð litið niður á lyklaborðið á borðtölvunni áðan og sá að það var frekar ... hmm ... við skulum bara segja að þrifnaði á því hafi verið örlítið áfátt. Kaffidropar á tökkunum, torkennileg mylsna á milli takka og svona. Það vildi svo til að ég var með raka tusku í seilingarfjarlægð og greip hana og fór að nudda kaffiblettina af tökkunum. Án þess auðvitað að slökkva á tölvunni fyrst eða taka lyklaborðið úr sambandi eða eitthvað álíka gáfulegt.
Nema náttúrlega þegar ég leit upp frá nuddinu og á skjáinn var þar ýmislegt undarlegt, gluggar sem ég hef aldrei séð áður og á örugglega aldrei eftir að sjá aftur og einhverjar fúnksjónir sem höfðu breyst og kannski er eitthvað sem ég mun aldrei átta mig á að mér tókst að breyta ... Ég var heillengi að koma öllu í lag.
Ég held ég sé ekkert að þrífa meira í bili. Bara bölvuð vitleysa. Eitthvað var verið að skrifa um daginn um sýkla á lyklaborðum, var það ekki? en sýklar eru bara hollir, svona í hófi að minnsta kosti.