Bókafjársjóðurinn
Þegar mig langar til að finnast ég ægilega rík, þá fer ég á vefinn hjá fornbókasalanetinu abebooks, finn matreiðslubækur - einhvern álitlegan undirflokk - stilli á Sort results by highest price og fer að skoða. Sjáum til. The Taste of Colombia eftir Benjamin Villegas? Jú, ég á hana. 500 dollarar. Thai Food eftir David Thomson? Ojú, 236 dollarar þar. Imperial Mongolian Cooking? Hana á ég líka, 223 dollarar. The Momo Cookbook 203 dollarar. Middle Eastern Cookery eftir Arto de Harotunian á 197 dollara.
Þarna er ég rétt að byrja og strax komin í hundraðþúsundkallinn.
Því miður (fyrir mig, en sem betur fer ef ég væri að leita að þessum bókum) er þetta hæsta verðið. Það er líka hægt að finna - sennilega alveg jafngott - eintak af The Taste of Colombia hjá öðrum fornbókasala á 80 dollara, Thai Food fæst á 26 dollara (ameríska útgáfan að vísu, hún er ekki eins flott) og sama er líklega að segja um hinar flestar.
Ég var svo heppin að þegar ég var að byrja að leita mér að torfengnum matreiðslubókum á netinu fyrir mörgum árum fékk ég ráðleggingu frá bandarískum fornbókasala: -Mundu að verðið sem þú sérð er ekki endilega verðið sem einhver er tilbúin að borga fyrir bókina - það er verðið sem einhver er að vonast eftir að fá fyrir hana. Og það fer hreint ekki alltaf saman.
Nei, ég get líklega ekki treyst á að lifa af því í ellinni að selja úr matreiðslubókasafninu.