Vinir, spritt og skotfimi
Ég þurfti að flýta mér ögn heim og tók því strætó á Mýrargötunni. Lá við að svifi á mig um leið og ég kom inn, svo sterk var sprittlyktin af þremenningum sem sátu í vagninum. Ég komst heldur ekki hjá því að heyra samræður þeirra; einhvernveginn svona voru þær eftir að ég kom inn (nöfnum breytt vegna þess að ég man þau ekki):
Karl 1: -Ég skal láta þig vita það að ég á marga vini.
Kona: -Já.
Karl 1: -Það er hann Óli Guðmunds ... og ... (löng þögn).
Kona: -Nonni Páls?
Karl 1: -Já! Nonni Páls. Og svo er það hann ... æi ... sko ... hérna ... ég man ómögulega hvað hann heitir en hann er góður vinur minn.
Kona: -Ég þarf að fara inn í Skeifu. Þú getur farið í apótekið þar að kaupa spritt.
Karl 1: -Ætli verði ekki búið að loka?
Karl 2: -Nei, hún er bara 20 mínútur í fimm. Ég fékk spritt hjá Jóa.
Karl 1: -Jói! Hann er líka góður vinur minn, mjög góður vinur minn.
Síðan snerust umræðurnar af einhverri ástæðu sem ég missti af að skotvopnum og hvert þeirra kynni best að fara með þau og hver hefði drepið flesta (ég get svarið það). En þá hótaði bílstjórinn að henda fólkinu út og það sljákkaði í því. Því miður.
Það eru ýmsir fletir á því að ferðast með strætó.