Um afstæðan skyldleika
Mamma og pabbi voru í kvöldmat og gagnlega barnið og fjölskylda hennar líka. Í samræðum eftir matinn þurfti eitthvað að fletta upp í Skagfirskum æviskrám og Sauðargæran kom að og fór að forvitnast um hvaða bækur þetta væru. Ég sýndi honum myndir af langafa mínum og langömmu í Djúpadal og sagði honum að þetta væru afi og amma ömmu Diddu. Og svo myndir af langafa mínum og langömmu á Frostastöðum, semsagt afa og ömmu afa Rögna. Honum þótti þetta merkilegt en þegar hann vildi líka vita hvað allt hitt gamla fólkið í bókunum hét sagði ég stopp.
En svo fór ég að hugsa. Ég kynntist reyndar engu af þessu fólki sjálf, það var dáið áður en ég fæddist nema langamma í Dal, sem dó þegar ég var á öðru ári og ég man ekkert eftir henni. Samt finnst mér það vera mjög nátengt mér og allir afkomendur þess náskyldir mér. Og barnabörnunum mínum líka.
En auðvitað er það ekki svo. Sauðargæran og þeir sem eru jafnlangt komnir frá Djúpadals- og Frostastaðahjónum og hann eru skyldir í fimmta lið, sem er nú ekkert afskaplega náskylt. Ég áttaði mig eiginlega ekki á þessu fyrr en ég fór að skoða ættartöluna og setti sjálfa mig í sömu stöðu og Sauðargæruna. Sigríður gamla í Djúpadal, sem áreiðanlega huggaði mig og hossaði mér einhverntíma þegar ég var pínulítil þótt ég muni það ekki, er móður-móður-móður-föður-móðir hans. Móður-móður-móður-föður-móðir mín hét Jóhanna Jónsdóttir, fædd á Efri-Glerá 1813. Hún fór ung vestur í Skagafjörð, gerðist vinnukona hjá Eiríki og Hólmfríði í Djúpadal (langalangalangafa mínum og langalangalangömmu) og eignaðist son (Eirík langalangafa minn) 1835 með húsbóndanum, en hjónin eignuðust sama ár dóttur (Valgerði langalangömmu; ég er semsagt bæði út af hjónabandsbarninu og framhjátökubarninu).
Jóhanna var eitthvað áfram í Dal og sonur hennar ólst þar upp til fullorðinsára. Hún átti tvö börn á allra næstu árum og sagan segir að Eiríkur hafi átt þau líka þótt þau væru kennd öðrum. ,,Lenti í ástarstússi og barneignum með Eiríki í Djúpadal," segir Eiður á Þúfnavöllum um þessa formóður mína í einhverrri bók sinni. Svo fór hún aftur í Eyjafjörðinn, giftist og átti slatta af börnum og dó 1901, örugglega södd lífdaga.
Mér finnst ég ekkert sérlega náin þessari formóður minni þótt ég vildi gjarna vita meira um ævi hennar. Svo að ekki get ég ætlast til þess að Sauðargæran finni til mikilla tengsla við Djúpadalshjónin gömlu. Þaðan af síður finn ég til mikils skyldleika við alla afkomendur Jóhönnu, sem ég veit raunar lítið um - það er að segja þá eyfirsku (nema ég veit reyndar að Óli Gneisti er einn þeirra).
Þannig að ég verð víst að játa að sum börnin sem mér finnst vera náskyld barnabörnunum mínum - af því að afar þeirra eða ömmur eru náskyld mér - eru víst orðin harla fjarskyld þegar betur er að gáð.