Páskaeggjanostalgía
Ég var í páskaeggjasmökkun áðan. Smakkaði átta misgóð páskaegg. Allt í lagi með það en á heimleiðinni fór ég að hugsa um páskaeggin sem ég fékk þegar ég var lítil. Einhvernveginn voru þau nú svo miklu betri (eða ég með einfaldari smekk). Lítil, hugsanlega sambærileg við Nóaegg nr. 3 núna (ætli þetta hafi ekki einmitt verið Nóaegg?). Fóturinn var steyptur sérstaklega og límdur neðan á þannig að þótt hann væri brotinn af gat eggið haldist heilt. Og svo var súkkulaðimynstri sprautað á samskeytin á eggjahelmingunum. Skreytingin var gulur ungi sem mátti borða, úr - nei, ekki marsípani líklega, heldur einhvers konar sykurmassa. Hann var nú ekkert góður en maður borðaði hann samt.
Ég man ekki lengur hvert innihaldið var. Einhverjir konfektmolar ábyggilega, og eitthvað fleira. Það skipti minnstu máli. Var líka borðað fyrst en páskaeggið sjálft treint sem lengst.
Páskaegg og mjólkurglas. Fullkomin blanda, fannst mér. Ég man að ég hellti stundum eggjahelming fullan af mjólk og drakk hana úr egginu. Það var ekkert til betra.