Tölvur, umhverfishljóð og kvenleg rökvísi
Ég sagði einkasyninum í gær að ég ætlaði að fara að kaupa mér fartölvu, sem ég hef ekki átt síðan Birtíngur stal hinni af mér. Ekki að ég ætli að vera mikið á ferðinni með hana; mig vantar bara tölvu til að vera með fyrir framan sjónvarpið. Spila tölvuleiki og flakka um netið og svona. Ég á nefnilega svo erfitt með að gera bara eitt í einu. Og eftir að ég fékk leið á sudokum er þetta spurning um nýja tölvu eða prjónaskap og það eru alveg takmörk fyrir því hvað ég nenni að prjóna mikið. Auk þess er garn ekkert ódýrt og ég er svo fljót að prjóna að ég nota mikið af garni svo að það verður ekkert ódýrara en tölva þegar upp er staðið.
Kvenleg rökvísi.
-Ég horfi hvort eð er frekar lítið á skjáinn þegar ég er fyrir framan sjónvarpið, sagði ég. - Það þarf allavega að vera eitthvað mjög áhugavert eða spennandi í gangi til að ég nenni að góna stanslaust, ég verð að hafa eitthvað annað. Þannig að þegar ég er búin með teppið sem ég er að prjóna handa Sauðargærunni (og nýja vettlinga handa honum), þá kaupi ég tölvu.
Hann þekkti þetta vel, er svona sjálfur. Þegar við bjuggum saman á Kárastígnum sátum við iðulega hlið við hlið í sófanum fyrir framan sjónvarpið og horfðum á einhvern glæpaþátt, hvort með sína fartölvuna í fanginu. Held samt að það hafi ekki komið fyrir nema einu sinni að við höfum farið að tala saman á msn í staðinn fyrir að opna munninn.
Þegar ég er inni í stofu kveiki ég oft á sjónvarpinu til að hafa það sem undirspil þótt ég sé eiginlega ekki að horfa. Á svolítið erfitt með að skilgreina þetta því að nú á ég til dæmis ekki ipod, ekki geislaspilara (eða jú, en hann hefur aldrei verið notaður) og kveiki aldrei á útvarpi nema milli 7.20 og 7.40 á morgnana (eða þar um bil). Einu hljóðin sem heyrast hér á heimilinu þegar ég er ein koma úr sjónvarpinu - já, og frá kaffivélinni og svoleiðis.
(Einhver gæti verið leiðinlegur og nefnt hroturnar í mér en það er bara þegar ég er sofandi, ergo heyrast þær ekki því að það er enginn til að heyra þær nema ég og ég er sofandi.)
En nú þarf ég að fara út og kaupa meira garn til að klára ullarteppið sem Sauðargæran bað mig um að prjóna handa sér. Svona kúruteppi.