Átak í ömmulegheitum
Ég þyki víst ekkert voðalega ömmuleg. Sem ég ætti náttúrlega að vera miðað við að eftir innan við þrjú ár gæti ég verið orðin langamma ef Boltastelpan tekur mig sér til fyrirmyndar í táningaóléttum, sem ég vona reyndar að hún geri ekki.
Þetta er eiginlega ekki nógu gott svo að nú hef ég ákveðið að leggja mig fram um að vera ömmulegri en áður. Prjónaskapurinn sem ég er búin að leggja stund á að undanförnu er þáttur í því (í gær prjónaði ég húfu og vettlinga á Sauðargæruna úr afgöngum af garninu sem ég notaði í teppið) og svo keypti ég ömmulega gardínukappa í Rauðakrossbúðinni á dögunum og er búin að hengja þá upp í stofunni og borðstofunni. Ég fór í klippingu áðan og var að hugsa um að biðja um eitthvað ömmulegt en hætti við það. Hefði náttúrlega getað látið lita hárið grátt en fyrst það vill ekki grána af sjálfu sér held ég samt að ég láti það ógert.
Næsta skref verður líklega að steikja kleinur.
Hmm, hvað gera típískar ömmur fleira? Ég var að átta mig á að ég hef ekki hugmynd um það.