Sverðasveiflur og páskaföndur
Mér sýnist að ég verði meira og minna ein heima um páskana; gagnlega barnið og fjölskylda hennar norður í Húnaþingi. Einkasonurinn að vísu í bænum og það getur nú verið að hann líti eitthvað inn hjá gömlu konunni. Skylmingastúlkan sambýliskona hans er lögð af stað til Alsír, þar sem hún ætlar að sveifla sverðum um páskana, vonandi þó ekki berjast við hryðjuverkamenn og talíbana sem vaða víst uppi þar um slóðir og vonandi tekst henni líka að reka sverðið ekki í skrokkinn á Sigurði skáldi Pálssyni, sem mér skilst að verði líka í Alsír um páskana í einhverjum menningarlegum erindum. Hann var reyndar helst að hugsa um að klæðast búrku til að dylja evrópskan uppruna sinn fyrir öfgasinnuðum íslamistum, enda hefur hann náttúrlega ekki sverð sér til varnar eins og tengdadóttir mín.
Ætli ég noti ekki páskana í að þýða bókarpart sem ég er búin að taka að mér. Páskarnir hafa löngum reynst drjúgir til slíkra verka, ég þýddi nokkuð góðan skerf af Stóru matarbókinni um páskana í fyrra og hef oftar komið miklu í verk þessa daga. Nema náttúrlega páskana þegar ég spilaði Populous á SNES-tölvu einkasonarins frá morgni til kvölds. Það varð lítið úr verki þá páska.