Lélegur rukkari
Ég var svo dugleg í dag að ég fór á pósthús og keypti frímerki og póstlagði reikninga sem ég skrifaði fyrir viku. Þannig að ef þeir sem ég er búin að vera að vinna ýmis viðvik fyrir síðustu mánuði eru röskari að borga en ég að rukka ættu peningar að streyma inn á reikninginn minn á næstunni. Og þegar ég nenni get ég skrifað fleiri reikninga og sent á aðra sem ég er líka búin að vera að vinna fyrir (ég keypti meira að segja umframfrímerki!) og fengið meiri peninga.
Nema þetta verði eins og með mann sem ég vann ákveðið verkefni fyrir í sumar. Hann spurði hvað hann ætti að borga mér fyrir verkið.
-Æi, svona fjörutíu þúsund, sagði ég.
-Viltu ekki segja fimmtíu? sagði hann.
Ég var svosem alveg til í að segja fimmtíu.
-Sendu mér svo reikning sem fyrst og ég geng frá þessu, sagði hann.
Það dróst reyndar í einhverjar vikur að ég sendi reikninginn. Síðan hef ég ekkert spurt til mannsins.
Líklega þarf ég að fara að gera alvöru úr að fá mér umboðsmann.