Vetrarpottréttur
Ég er nú ekki vön að lesa viðtöl við sjálfa mig í blöðum (og ég forðast eins og heitan eldinn að hlusta á mig í útvarpi eða horfa á mig í sjónvarpi) en ég gat þó ekki betur séð en uppskriftina sem átti að fylgja viðtalinu í Fréttablaðinu (með myndinni af okkur Sauðargærunni) vantaði alveg. Kannsi var hún þó einhvers staðar aftar, ég gáði ekki að því. En ég set hana allavega hér:
Vetrarpottréttur
2 msk ólífuolía
2 laukar, smátt saxaðir
800 g beinlaust lambakjöt (eða annað kjöt, en lambaframhryggur hentar vel)
500 ml maltöl
250 ml soð (vatn og soðkraftur)
1 hvítlauksgeiri, saxaður
2 msk paprikuduft
1 tsk kúmen (má sleppa)
800 g mjöllitlar kartöflur, flysjaðar og skornar í litla teninga
1 dós saxaðir tómatar
söxuð steinselja
1 Hitaðu olíuna í í stórum, þykkbotna potti og láttu laukinn krauma við fremur vægan hita í 2-3 mínútur, eða þar til hann er mjúkur en ekki farinn að taka lit. Taktu hann þá upp með gataspaða og settu á disk.
2 Settu helminginn af kjötinu í pottinn og brúnaðu það vel við háan hita. Taktu það þá upp og brúnaðu hinn helminginn. Lækkaðu hitann og settu fyrri kjötskammtinn og laukinn aftur í pottinn og hrærðu vel. Bættu svo soði, bjór eða malti, hvítlauk, paprikudufti og kúmeni í pottinn, kryddaðu með pipar og salti og hitaðu að suðu. Settu lok á pottinn og láttu malla við vægan hita í 1 klst.
3 Settu kartöflurnar og tómatana í pottinn og láttu malla í 1 klst. í viðbót, eða þar til kjötið er mjög meyrt. Smakkaðu, bættu við pipar og salti ef þarf og stráðu saxaðri steinselju yfir.