Steik og smábörn
Búin að vera að dunda mér í dag við að elda þessa fínu Wellington-nautasteik upp úr Stóru matarbókinni og láta mynda hana á ýmsum stigum verksins. Árangurinn sést væntanlega fljótlega í Mogganum. Spurning samt hvað ég á að gera við steikina, ætli ég taki hana ekki bara með í vinnuna á morgun handa einhverjum að smakka? Þori samt ekki að lofa því - ef ég skyldi nú gleyma steikinni heima ...
Á meðan blaðamaðurinn stoppaði við komu mæðgin í löngu planaða heimsókn. Sonurinn reyndist vera algjör flagari og lét mikið skína í allar tennurnar sjö - en þegar móðir hans þurfti út að borga í stöðumæli (fólk þarf sko að borga fyrir að heimsækja mig á virkum dögum) og ég reyndi að hafa ofan af fyrir honum grenjaði hann eins og brunalúður. Ég hef aldrei haft gott lag á smábörnum. Nema í hóflegri fjarlægð. Líklega er ég ekki nógu ömmuleg.