Ljúfmeti í London
Búin að panta borð fyrir okkur mæðgurnar á tveimur veitingastöðum í London um helgina. Einum fínum frönskum Michelinstað á föstudaginn og einum trendí líbönskum stað á laugardaginn; hef reyndar borðað áður á þeim fyrrnefnda og verið afskaplega ánægð með en það er orðið langt síðan. Mér skilst þó á nýlegum umsögnum að staðurinn fari bara batnandi ef eitthvað er.
Ég efast um að ég panti neitt meira fyrirfram; dagskráin hjá okkur er mjög opin og óþarfi að vera að negla sig mikið niður á ákveðið hverfi t.d. í hádegismat þegar það gæti svo dottið í okkur að vilja vera á allt öðrum stað á undan eða eftir að gera eitthvað spennandi. Það eina sem er eiginlega alveg ákveðið er að við förum á Borough-markaðinn, líklega á laugardagsmorguninn - en þar þarf maður nú ekki að hafa miklar áhyggjur af hádegismatnum. Á eftir getur verið að við bregðum okkur yfir ána til að fylgjast með Lord Mayor's Show, hver veit?
Ég efast um að ég versli mikið (nema kannski eitthvað af sælkeravörum). Þarf allavega ekki að óttast að jólakjóllinn verði hirtur af mér í tollinum - ég keypti hann í gær.