Of fáar eða of margar?
Ég kom við í Eymundsson í dag. Viti menn, matreiðslubækur á útsölu. Alltaf einhverjr freistingar að falla fyrir. Allt bækur sem mig bráðvantaði, auðvitað.
Ég hugsa samt að ég komi ekki með margar bækur heim frá London. Ég er (næstum) hætt að kaupa annað á ferðalögum en bækur sem erfitt er að finna á netinu með góðu móti. Legg frekar á minnið ef ég rekst á álitlegar bækur og panta þær svo gegnum amazon.co.uk. Minna vesen og ódýrara líka þótt sendingarkostnaður og vaskur bætist við, allavega þegar um nýútkomnar sölubækur er að ræða, því að þá er oft afslátturinn svo mikill hjá amazon.
En ef einhver heldur að sextán hundruð matreiðslubækur sé nóg, þá er svarið nei. Einhvern tíma vitnaði ég í Julian Barnes, sem sagði að það væri hægt að svara spurningunni um hvað maður ætti margar matreiðslubækur á þrennan hátt: a) of fáar b) hæfilega margar c) of margar, og ef maður svaraði b) yrði maður dæmdur úr leik fyrir að vera annaðhvort að ljúga eða hafa ekki áhuga á mat - eina rétta svarið væri sambland af a) og c), a vegna þess að það væri alltaf eitthvað nýtt að læra, eitthvað betra, einfaldara, flottara, meira ekta - og c vegna þess að maður gerði alltaf slatta af mistökum þegar maður leitaðist við að uppfylla a.
Mætti líklega heimfæra þetta á ýmislegt fleira í lífinu.