Alveg ágætis kvöldverður
Matseðillinn á Roussillon var einhvern veginn svona (er ekki á heimasíðunni og ég er ekki alveg viss með að muna allt - hmm, mögulegt að vínið sem við drukkum með spili inní? Ég treysti mér alls ekki til að rifja upp víntegundirnar en flest vínin voru frá Roussillon eða Languedoc nema hvað við fengum ammontillado með humrinum og sardínunum og pommeau með súkkulaðieftirréttinum. En allavega:
nokkrar franskar með ídýfu með sterkum edikskeim og litlar vol-au-vents með e.k. pestófyllingu
(brauðbakki með 8 girnilegum tegundum af smábrauði, allt bakað á staðnum)
litlar mjúkar ,,kökur” úr graskersmauki og peruhlaupi með blaðlauks-velouté
gljáðir humarhalar og sardínur með fenniku, beðju og sítrónusósu
risotto með trufflum og brúnuðu smjöri
pétursfiskur með smokkfiskhringjum í sósu úr stökku blómkáli og smokkfiskbleki
skoskt dádýr með seljurótarmauki, graskeri, soðnum perum og trufflum
ostasoufflé fourme d’ambert
kveðuís (það var eitthvað meira með, man ekki hvað)
súkkulaði-pralínkaka með blaðgulli
kaffi og konfekt
Gagnlega barnið spurði af hverju í ósköpunum ég færi ekki á Roussillon í hvert einasta skipti sem ég fer til London. Ég varð eiginlega að spyrja sjálfa mig að því sama. Það kostar sitt en svo getur maður líka fengið færri rétti ... Allavega, fyrir rómantískt (eða notalegt) sælkerakvöld, þá get ég alveg mælt með Roussillon.