Matvendni
Ég var áðan að lesa þráð á útlendu matarspjalli þar sem fólk var að nefna eitthvað eitt (eða nokkrar fæðutegundir) sem það borðaði alls ekki. Þá var átt við ,,venjulegan" mat - ekki endilega mjög algengan en allavega ekki furðulegan (dæmi: filippseyskt balut, sem í augum Íslendinga er eitthvað svipað og kæstur hákarl í augum flestra útlendinga).
Ég var matvönd þegar ég var krakki og matvendni er nokkuð landlæg í minni fjölskyldu. Nú orðið borða ég nokkurn veginn allt nema reykta ýsu og það hefur ekkert með bragðið að gera. Og það sem er bragðbætt með möndludropum reyni ég að forðast þótt mér þyki ekta möndlubragð gott. Annars held ég að ég borði svo til allt sem er borið fyrir mig. Að minnsta kosti ef annað er ekki í boði.
Segið mér nú - þ.e. þau ykkar sem ekki eruð matvönd og eruð fljótari að telja upp það sem þið borðið ekki en það sem þið borðið - hvaða venjulegan mat/hráefni þið borðið alls ekki. Súrmatur og annað gamalt íslenskt ekki meðtalið, það er svo algengt.