Sörvis hjá Akureyrarlöggunni
Á meðan ég man alltsvo:
Ég var að rifja upp í gær hvenær ég hefði síðast farið úr bænum um verslunarmannahelgi. Hugsanlega hef ég af og til verið á Króknum þessa helgi en í útilegu hef ég ekki farið í ein 34 ár.
Sú verslunarmannahelgi endaði í fangaklefa á lögreglustöðinni á Akureyri á mánudegi. Nei, ég var ekki sett í steininn og klefinn var galopinn. Ég fékk bara að liggja þarna undir teppi og lesa gömul blöð á meðan löggan var svo væn að þurrka buxurnar mínar, sem höfðu blotnað illa í miklu vatnsveðri. Ég fékk kaffi og gott ef ekki kleinur með og svo var komið með buxurnar skraufþurrar til mín.
Síðan hefur mér alltaf legið heldur gott orð til löggunnar á Akureyri.
Strákarnir sem ég hafði verið í samfloti með um helgina pöntuðu sér aftur á móti leiguflugvél suður; buðu mér að koma með í borgina og þaðan til Súðavíkur. Ég afþakkaði það (eftir nokkra umhugsun) og það var ekki bara út af bleytunni.
Síðan hefur mig ekki langað í ferðalög um verslunarmannahelgi.