Silence is golden ...
Ég fór og keypti mér nýja útvarpsvekjaraklukku. Svona til öryggis. Hvort sem þetta var bilun eða morgunvitjun einhvers framliðins. Eða bara ég að delera í svefni.
Til öryggis keypti ég klukku með bakköppbatteríi sem vekur mann á réttum tíma þótt rafmagnið fari af gjörvöllu suðvesturhorninu og álverum um allt land. Það er að segja ef ég man einhvern tíma eftir að setja batterí í hana.
Ég var svo upptekin af þeim fídus og fleirum sem tækið hefur að ég tók ekki einu sinni eftir því fyrr en heim var komið að þetta er meira að segja geislaspilari líka. Ég hef aldrei átt geislaspilara áður - eða sko ég átti einn í mánuð árið 1989 eða svo en gaf þá gagnlega barninu hann. Reyndar á ég ekkert annað útvarp heldur.
Veit nú ekki hvað ég geri með þennan geislaspilara, enda á ég enga diska - kannski einhverja þrjá sem mér hafa verið gefnir en finn örugglega aldrei.
Ég er ekki mikið fyrir músik. Eða hávaða yfirleitt.
Nema ég á það til að syngja. Þegar ég er alveg örugglega ein heima.