Ég vildi að ég væri hinsegin ...
Á svona dögum bölvar maður því að vera streit.
Ég fór niður á hornið á Barónsstíg og Laugavegi og fylgdist með allri göngunni fara framhjá; stytti mér svo leið, flýtti mér niður í Bankastræti og stakk mér inn í aðstandendahópinn þar sem mestöll fjölskyldan var samankomin. Það var skemmtileg stund.
En ég fór að hugsa um eitt: Þegar hommar og lessur dansa léttklædd og glannalega máluð á bílpöllum á Laugaveginum er það frábært (sem það er).
Þegar ég (eða ókei, þrjátíu árum yngri útgáfa af mér) er með flegið niðurundir nafla og klauf í pilsið uppfyrir mitt læri (hvorttveggja fatnaður sem ég er gjörn á að klæðast þótt ég sé kannski ekki ídealkandídat í það), þá eru það áhrif frá klámvæðingunni eða eitthvað álíka og þarafleiðandi mjög slæmt. Þýðir ekkert fyrir mig að segja að mér líði einfaldlega vel í svona fötum.
Ég man að einu sinni var á femínistapóstlistanum kvartað yfir mynd í Gestgjafanum þar sem sást í brjóstaskoru á konu í auglýsingu; þessu væri verið að troða framan í saklausa lesendur. Ég skoðaði myndina, labbaði fram og leit í spegil. Ég var í flegnum bol og það sást sko ekki minna í mína prívatbrjóstaskoru en hjá stúlkunni á myndinni. Þannig að ég var væntanlega að troða henni framan í vesalings vinnufélagana mína. (Enginn hafði hinsvegar kvartað yfir myndum af alsberum karlmönnum sem voru í Gestgjafanum nokkru fyrr.)
Þess vegna dauðöfunda ég satt að segja homma og lessur. Allavega í dag. Í dag geta þau fagnað því að vera eins og þau eru og við getum fagnað með þeim.