Handlagna konan
Mér tókst að saga sundur vinnuborðið áðan. Segi ekki að það hafi verið sérlega snyrtilega gert - hefði getað verið örlítið beinna - en ég hefði nú vandað mig meira ef ekki stæði til að skipta um það sem eftir er af borðplötunni alveg á næstunni. Þetta tókst allavega með hjálp minnar góðu stingsagar - kannski er meiri sannleikur í netprófinu sem ég tók um daginn en ég hélt.
Næsta verkefni er að skrúfa lappirnar undir nýju eldavélina og flytja hana á sinn stað í eldhúsinu. En það geri ég líklega ekki ein. Þarf að kveðja einkasoninn til liðsinnis. Næst þegar hann vaknar.
Þegar ég var átján ára og vann á ellideildinni á sjúkrahúsinu heima gat ég skipt ein um lak undir hundrað og tíu kílóa lömuðum karli. En ég held ég treysti mér ekki til að velta eldavélinni á hrygginn til að skrúfa lappirnar undir hana og reisa hana við aftur ein míns liðs. Svona fer manni aftur.