Seint koma sumir en koma þó
Þegar ég kom heim í gær beið eftir mér bréf frá póstinum með tilkynningu um tollskylda sendingu sem biði afgreiðslu. Ég átti ekki von á neinu en þegar ég skoðaði málið betur sá ég að hér var Amazon-sendingin sem hvarf í Þýskalandi einmitt komin. Nærri mánuði eftir að ég var búin að fá hana endurgreidda ...
Nú hefði ég skilið þetta ef DHL hefði komið með hana, þá væntanlega eftir að hafa fundið hana í einhverju pakkalimbói í Saulheim. En nei, þetta var pósturinn. Þýðir það að DHL hafi gefist upp á að koma sendingunni til mín og ákveðið að senda hana bara í pósti? Hlýtur að vera.
Annað sem ég skil ekki: Tollmiðlun póstsins vill að ég skili vörureikningi, sem væri sjálfsagt mál. Nema með bréfinu fylgir fullgildur vörureikningur í tvíriti. Væri ekki bara hægt að nota hann??
Skiptir annars ekki máli, ég sagði þeim að endursenda pakkann. Ég er búin að fá bækurnar endurgreiddar fyrir löngu, búin að panta sumar þeirra aftur og búin að fá þær og lesa þær.