Rödd án líkama
Ég er alltaf að lenda í því að fá eitthvað á heilann sem ég tauta þá eða söngla í tíma og ótíma.
Ef þetta eru söngtextabrot (sem er mun verra, það vita þeir sem til þekkja) er það sjaldnast nema ein lína eða tvær. Gjarna Elvis en því miður iðulega Það sem enginn sér (lostafulli gamli máninn).
En oftast er þetta til allrar hamingju eitthvað annað. Og í allan dag er ég búin að vera með gamlan og góðan frasa á heilanum. Gjörsamlega að ástæðulausu.
Þannig að ef þið lentuð í því í dag að mæta miðaldra konu í skræpóttum jakka sem allt í einu tautaði upp úr þurru ,,rödd án líkama er kynlegri en góðu hófi gegnir" - ja, þá var það ég.