Handan við vegginn
Ég var að hugsa um það þegar ég heimsótti tilvonandi vinnufélaga mína á Bistró í dag að það væri nú mesta bölvuð vitleysa hjá mér að vera búin að selja íbúðina. Hugsið ykkur: Að öðrum kosti gæti ég einfaldlega látið brjóta gat á vegginn á svefnherberginu mínu, svona um það bil 50 cm austan við koddann minn, og þá gengi ég beint inn í ritstjórnarskrifstofu Bistrós. Styttri leið getur maður víst varla átt í vinnuna. Ef ég svæfi yfir mig gæti ég bara mætt á náttsloppnum. -Er þetta nógu nálægt fyrir þig? var ég spurð þegar staðurinn var fundinn. Enda búin að gefa margar yfirlýsingar um að ég vildi ekki eiga langa leið í vinnuna.
En nú er ég að flytja eftir tvær vikur eða svo og þá gæti það tekið mig allt að fjórar eða fimm mínútur að labba í vinnuna ef ég er ekki að flýta mér að ráði. Svo að ég sleppi öllum húsbrotum í bili.
En það verður ekkert verra að hafa einkasoninn í næsta húsi ef ég þarf að hafa gagn af honum.