Milljónamæringur í eina nótt
Ég er að fara á eftir að ganga frá kaupsamningi um Grettisgötuna. Þá fækkar ansi mikið öllum milljónunum sem eru inni á bankareikningnum mínum. Þær fengu þó að standa þar eina nótt, það var nú ágæt tilfinning. Ég er ekki mikið fyrir peninga en ,,I´ve been rich and I´ve been poor. Rich is better," eins og einhver sagði einhvern tíma. Var að hugsa um að stinga af til Karíbahafsins eins og söguhetja í bók eftir John Grisham en áttaði mig svo á því að til þess þarf maður aðeins fleiri millur og auk þess þarf helst að stela þeim af mafíunni eða öðrum vonduköllum.
Ég rennblotnaði á leiðinni utan af strætóstoppistöð hingað á Höfðabakkann. Það gerði mig bara enn staðfastari í að finna vinnu sem næst heimili mínu. Datt í hug að sækja bara um starf hjá Reyni af því að ég sé að hann verður með lókal á Laugavegi 24 en svo mundi ég að ég er að fara að flytja mig ögn austar í bæinn.
Annars hringdi í mig maður í fyrrakvöld og spurði hvort hann mætti benda á mig sem kandídat í aukadjobb þar sem annað helsta skilyrðið væri hæfileiki til að þykjast vera fyndin. Þessi maður þekkir mig semsagt nokkuð vel.