Gátan ráðin
Ég held að ég sé búin að finna skýringuna á kvennaklósettsráðgátunni.
Þetta mun vera einhver af nýju blaðamönnunum sem ekki hefur tekist að finna karlaklósettið ennþá. Mögulega vegna þess að þótt dyrnar að kvennaklósettinu séu rækilega merktar Dömur (og mynd af kvenmanni), þá hangir miði á hurðinni að karlaklósettinu (sem er inni í horni, góðan spöl frá kvennaklósettinu) sem á stendur Block Party og undirritað Fríða. Og þegar dyrnar eru opnaðar blasir ræstingakompan við. Reyndar er gengið úr ræstingakompunni inn á karlaklósettið en þær dyr eru ekki merktar.
Þannig að þetta getur ábyggilega vafist fyrir fleirum en Birni Jörundi. Ekki síst af því að það hefur gleymst að rölta með nýja blaðamenn um húsið og sýna þeim salarkynni; tekur því kannski ekki ef á að fara að brjóta niður veggi í gríð og erg.