Room with a view ...
Eitt sem ég gleymdi að nefna varðandi draumaíbúðina: Það þarf ekkert að sjást í Esjuna.
Einhversstaðar las ég að íbúðir hækkuðu um milljón ef væri útsýni til Esjunnar. Og það var í hitteðfyrra þannig að sennilega er það ein og hálf milljón núna. Reyndar sést í Esjuna héðan af Kárastígnum en bara ef ég sit í sófahorninu, þá sést smápartur. Hækkar nú varla íbúðarverðið nein ósköp.
En mér er nokk sama hvort ég sé Esjuna. Hún er ekki það falleg. Og ég er ekkert mikið að pæla í því hvað ég sé út um gluggana, eins og sannaðist hér áðan. Ég og einkasonurinn sátum í stofunni og allt í einu varð mér litið út um gluggann. Og varð að orði:
-Hjalti minn ... er þetta hús búið að vera þarna lengi?
Hann segir mér að það sé búið að vera í byggingu í einhver ár. Ég hef bara ekki tekið eftir því fyrr ...
Aftur á móti væri ég alveg til í að borga smá auka fyrir að sjá Glóðafeyki út um gluggann. Ég tala nú ekki um ef það væri eldhúsglugginn. Í staðinn fyrir Hallgrímskirkju.