Gleraugnaleysi
Ég hef komist að því að undanförnu að margir þeirra sem ég umgengst mikið eru búnir að steingleyma því að ég hafi nokkurntíma gengið með gleraugu þótt það séu innan við sex vikur síðan ég fór í aðgerðina.
Kannski ekki skrítið; ég er eiginlega búin að gleyma því sjálf. Allavega steingleymdi ég að fara í eftirskoðunartímann sem ég átti pantaðan í dag.
Fyrsta verkið mitt á morgnana var yfirleitt að teygja mig í gleraugun og úrið á náttborðinu. Ég man aldrei eftir að hafa lent í því að þreifa eftir gleraugunum eftir aðgerðina þótt ég sé oft töluvert utan við mig á morgnana (enn meira en venjulega). Hins vegar gleymi ég eiginlega alltaf úrinu núna af því að það vantar tenginguna við gleraugun.
Ég er samt alls ekki alveg gleraugnalaus. Núna þarf ég oft að setja upp lesgleraugu, allavega þegar letrið er smátt eða birtan léleg. Þar er aldursfjarsýnin farin að segja til sín - hún var það auðvitað líka áður því að ég var farin að þurfa að taka af mér gleraugun til að lesa - þannig að ég er bara með eðlilega sjón miðað við aldur.
Sem sagt: Það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki átt kost á að fara í aðgerðina þrjátíu árum fyrr.