Ég fór í skoðun áðan fyrir drastísku aðgerðina sem ég ætla í. Það kom upp úr dúrnum að ég er ídealkandídat í svona aðgerð þannig að ef ég renn ekki á rassinn með allt saman (sem ég á ekki von á) fer ég í aðgerð eftir viku.
Ég fékk m.a. blað með umfjöllun um undirbúning fyrir aðgerðina. Sjáum nú til:
- Ekki nota augnfarða eða andlitsfarða. Lítið mál að verða við því þar sem ég farða mig aldrei, síst um augun.
- Ekki setja á þig ilmvatn/rakspíra eða önnur ilmefni. Ég er nú ekki vön að nota mikið af þessu. Síst rakspíra.
- Vertu með hreint hár. Jamm, ég þvæ á mér hárið af og til. Hlýt að geta munað eftir þessu.
- Vertu í þægilegum fötum án rúllukraga. Ég er alltaf í þægilegum fötum og þoli ekki rúllukraga.
- Gott er að hafa með sér sólgleraugu til að nota á heimleiðinni. Ég á reyndar engin slík, bara hlíf til að smella á gleraugun. En efnafræðistúdentinn á einhvers staðar kókaínbarónagleraugu sem ég get notað (þessi sem ég var með þegar ég var Greta Garbo á öskudaginn).
- Þú mátt ekki aka heim. Lítil hætta á því.
Pís of keik, semsagt. Sjáum til hvernig þetta fer.