Ég var að tala um bragðprófanir hér fyrir nokkrum dögum og hvað sjón- og lyktarskyn hefði mikil áhrif á bragðskynjunina. Mér datt þetta einmitt í hug áðan þegar ég settist niður hjá samstarfskonum mínum, sem voru í einhverju voða heilsustuði að ryðja í sig hráu blómkáli, braut mér annars hugar kvist af blómkálinu, stakk upp í mig og bruddi. Var ekkert að horfa á blómkálið og var með hugann við eitthvað allt annað. Svo þegar ég var sest fyrir framan tölvuna áðan fann ég þetta greinilega eftirbragð í munninum og hugsaði: ,,Hvenær var ég að borða harðfisk?" Ég get svo svarið að það er harðfiskbragð af blómkálinu. Eða það er bragðið sem ég skynja.